Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
28.2.2009 | 21:13
Sjúkrahús í fjársvelti - alþingismenn brugðist
Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) hafa verið skornar við nögl til margra ára. HSS fær töluvert lægra rekstrarfé frá ríkinu heldur en aðrar sambærilegar stofnanir. Sem dæmi má nefna að Sjúkrahús Akraness fær 44% meira í framlög fyrir hvern íbúa samanborið við HSS. Munar um minna. HSS er gert að spara enn frekar og er vandséð hverning það er hægt á stofnun sem nú þegar hefur verið tálguð inn að beini. Niðurskurðurinn mun bitna hvað harðast á starfsemi skurðstofu og fæðingadeildar.Skurðstofan muni einungis verða opin frá kl. 8-16 tvo til þrjá daga vikunnar. Stefnir í að starfshlutfall muni minnka þar niður í 50%.
Fæðingar til Reykjavíkur
Við HSS er starfandi fjórða stærsta fæðingadeild landsins. Sú takmarkaða skurðstofuþjónusta sem í boði verður mun ekki þjónusta fæðingadeildina. Fæðingadeildin hefur búið við skerta þjónustu skurðstofu til margra ára en hefur engu að síður getað þjónustað um 86% fæðinga á svæðinu. Það þrengir hins vegar gríðarlega að starfsemi deildarinnar ef fram fer sem horfir. Samkvæmt reynslu annars staðar frá má búast við því að 2/3 hluti fæðinga flytjist á Landspítalann (LSH) og því muni einungis 1/3 hluti kvenna geta fætt í sinni heimabyggð. Miðað við tölur þessa árs hljóðar þetta uppá að 200 konur frá Suðurnesjum fæði á LSH og aðeins 100 konur fæði í heimabyggð.
Sjúkrahúsið Selfossi
Sömu sparnaðaraðgerðir eru í bígerð á Sjúkrahúsinu á Selfossi (HSU). Frá þessum tveimur stöðum munu samtals flytjast um 300 fæðingar yfir á LSH. Þar á bæ mun þurfa meiri mannafla vegna þessa og fjármuni til að breyta húsnæðinu til að koma þessu í kring. Á landsbyggðinni mun starfsfólk þurfa að minnka við sig vinnu og uppsagnir liggja í loftinu.
Alþingismenn brugðist
Fæðingar, sængurlega, að ógleymdum skurðaðgerðum eru mun dýrari á hátæknisjúkrahúsi en á landsbyggðasjúkrahúsunum. Ég vil því leyfa mér að setja spurningamerki við þann sparnað sem af þessum aðgerðum á að hljótast. Ég tel að alþingismenn Suðurkjördæmis hafi brugðist skyldu sinni við að standa vörð um hag umbjóðenda sinna. Þessar breytingar munu hafa áhrif á alla íbúa Suðurkjördæmis, samtals 46.000 manns, sem heyra undir heilbrigðisumdæmi HSS og HSU. Vegna skuldastöðu ríkissjóðs er óhjákvæmilegt að skera niður en stofnun sem hefur verið fjársvelt svo árum skiptir getur ekki sparað meira.
26.2.2009 | 09:20
Landbúnaður og staðan framundan
Bændur hafa ekki farið varhluta af efnahagsástandinu. Búin eru samtvinnuð heimilunum. Á síðastliðnum 10 árum hafa verið miklar tækniframfarir í landbúnaði. Framleiðslumagn á hvern bónda hefur aukist mikið og ný tækifæri skapast en að sama skapi eru skuldir margra bænda miklar. Næstu mánuðir snúast um að tryggja bændum greiðan aðgang að rekstrarfé svo búin stöðvist ekki og ekki dragi úr framleiðslunni. Ég er þeirrar skoðunar að bændur ættu að njóta sérstakra vaxtakjara þegar kemur að rekstrarfjármögnun. Bændur eru ein mikilvægasta atvinnustétt þjóðarinnar. Þeir tryggja okkur matvælaöryggi sem hefur aldrei verið mikilvægara en nú á síðustu mánuðum. Á þessum forsendum er vel hægt að réttlæta sérkjör á yfirdráttarlánum. Það er pólitísk ákvörðun að ákveða sérkjör fyrir bændur. Nú er rétti tíminn til þess að hrinda málinu í framkvæmd þar sem ríkissjóður á þrjá banka.Bændur hafa góða ímynd í fjármálastofnunum.Gríðarlegar hækkanir á áburði eru áhyggjuefni. Bændur eru víðast hvar að fullnýta búfjáráburð þannig að hann kemur ekki í staðinn fyrir tilbúinn áburð.Skuldugur ríkissjóður getur tæpast komið til hjálpar og ekki er réttlætanlegt að bændur þurfi að taka á sig þessa gríðarlegu hækkanir. Ekki er að sjá annað í stöðunni en að hærra afurðaverð þurfi að koma til.
Auka landbúnaðarframleiðslu til útflutnings
Það eru mörg tækifæri í landbúnaði, við eigum nóg af ræktarlandi. Nú á tímum atvinnuleysis þarf að auka landbúnaðarframleiðslu til útflutnings. Fjölmörg sveitarfélög byggja afkomu sína á landbúnaði. Það er því mjög mikilvægt að ekki dragi úr framleiðslunni. Við þurfum að auka heimavinnslu og kornrækt og skapa betri rekstrarskilyrði í greininni eins og í garðyrkju. Þjóðin hefur skilning á mikilvægi greinarinnar. Bankahrunið færði mörgum nýja sýn á mikilvægi íslensk landbúnaðar.
Stöðugleiki í efnahagsmálum lífsnauðsynlegur
Vaxtastigið í landinu leikur landbúnaðinn grátt eins og annan fyrirtækjarekstur. Stöðugleiki í efnahagsmálum er okkur lífsnauðsynlegur.Traust alþjóðasamfélagsins á efnahagsmálum Íslands er forsenda þess að gengi krónunnar nái jafnvægi á ný, það dragi úr verðbólgu, vextir lækki og hægt verði að skapa atvinnulífinu viðunandi starfsumhverfi. Varanlegum stöðuleika í efnahagsmálum, sem er lífsnauðsynlegur heimilum og fyrirtækjum, verður ekki komið á nema til komi myntsamstarf með öflugan Seðlabanka sem bakhjarl. Hefja ber undirbúning að slíku samstarfi strax.Losa ber sem fyrst um hindranir á flutningi fjármagns og leitast við að fá erlendan banka til að hefja hér starfsemi svo auka megi samkeppni. Stjórnmálamenn verða að bera virðingu fyrir efnahagslögmálum, misvitrar ákvarðanir stjórnmálamanna eiga þátt í því hvernig er komið fyrir þjóðinni. Slíkt má aldrei endurtaka sig.
22.2.2009 | 15:50
Æviágrip
Birgir Þórarinsson er sérfr. í alþjóðasamskiptum. Hann 43 ára og hefur sinnt ýmsum störfum á liðnum árum m.a. hjá SPRON, verið bæjarfulltrúi í Vogum, hjá slökkviliði Keflavíkurflugvallar og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Birgir er kvæntur Önnu Rut Sverrisdóttur, yfirljósmóður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þau eiga þrjá drengi. Þau eru búsett á bænum Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd þar sem hann hefur verið frístundabóndi. Birgir er formaður KSFS, kjördæmasamband framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi.
Birgir er með BA próf í guðfræði frá Háskóla Íslands, próf í opinberri sjórnsýslu og stjórnun frá EHÍ og meistarapróf í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustu frá American University í Washington D.C. Jafnframt hefur hann próf í hagsmunagæslu og alþjóðlegri samningatækni frá Public Affairs and Advocacy Institute og Intercultural Management Institute í Washington D.C.
Birgir er nýr stjórnmálamaður
Fyrir Framsókn nýrra tíma - Fyrir nýtt endurreist Ísland
Birgir Þórarinsson, formaður KSFS, kjördæmasambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, gefur kost á sér í 1.-2. sæti í Suðurkjördæmi fyrir Framsóknarflokkinn. Birgir telur að skynsamleg nýting náttúruauðlinda til atvinnuuppbyggingar sé forgangsmál þjóðar í vanda. Næg atvinna fyrir alla sé forsenda velferðarsamfélags og lífshamingju. Efnahags- og atvinnumál eru að mati hans málefni komandi kosninga. Birgir Þórarinsson hefur sinnt ýmsum störfum á liðnum árum m.a. hjá SPRON, verið bæjarfulltrúi í Vogum, hjá slökkviliði Keflavíkurflugvallar og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Birgir er kvæntur Önnu Rut Sverrisdóttur, yfirljósmóður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þau eiga þrjá drengi. Þau eru búsett á bænum Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.
Birgir er með BA próf í guðfræði frá Háskóla Íslands, próf í opinberri sjórnsýslu og stjórnun frá EHÍ og meistarapróf í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustu frá American University í Washington D.C. Jafnframt hefur hann próf í hagsmunagæslu og alþjóðlegri samningatækni frá Public Affairs and Advocacy Institute og Intercultural Management Institute í Washington D.C.
Birgir hefur sérfræðiþekkingu í erlendum samskiptum og samningatækni en kunnátta á því sviði mun nýtast vel í því mikla endurreisnarstarfi sem nú blasir við íslensku þjóðinni. Traust alþjóðasamfélagsins á efnahagsmálum Íslands er forsenda þess að gengi krónunnar nái jafnvægi á ný, það dragi úr verðbólgu, vextir lækki og hægt verði að skapa atvinnulífinu viðunandi starfsumhverfi. Varanlegum stöðuleika í efnahagsmálum, sem er lífsnauðsynlegur heimilum og fyrirtækjum, verður ekki komið á nema til komi myntsamstarf með öflugan Seðlabanka sem bakhjarl. Hefja ber undirbúning að slíku samstarfi strax. Mæta verður verulegum kostnaðarhækkunum einstakra atvinnugreina eins og í byggingariðnaði með sértækum tímabundnum aðgerðum. Bændur verða að hafa greiðan aðgang að rekstrarfé á góðum kjörum svo landbúnaðarframleiðsla skerðist ekki og matvælaöryggi þjóðarinnar verði tryggt. Losa ber sem fyrst um hindranir á flutningi fjármagns og leitast við að fá erlendan banka til að hefja hér starfsemi svo auka megi samkeppni. Kanna ber til hlítar réttarstöðu Íslands gagnvart erlendum skuldbindingum bankahrunsins. Styðja ber vel við saksóknara bankahrunsins og hraða rannsókn mála.
Stjórnmálamenn verða að bera virðingu fyrir efnahagslögmálum, misvitrar ákvarðanir stjórnmálamanna eiga þátt í því hvernig er komið fyrir þjóðinni. Framsóknarflokkurinn er atvinnumálaflokkur. Saga flokksins sýnir það og sannar að hann hefur ávallt lagt ríka áherslu á atvinnuuppbyggingu og verið óhræddur við að taka erfiðar ákvarðanir til þess að tryggja mætti atvinnu.
Nýr stjórnmálamaður Framsókn nýrra tíma Nýtt endurreist Ísland.
Eldri færslur
Myndaalbúm
Tenglar
Sveitarfélög
- Sveitafélagið Vogar
- Reykjanesbær
- Ríki Vatnajökuls
- Mýrdalshreppur
- Rangárþing Eystra
- Árborg
- Klaustur
- Rangárþing ytra
- Sandgerðisbær
- Grindavík
- Garður
- Hornafjörður
- Hrunamannahreppur
- Ölfus
- Bláskógabyggð
- Flóahreppur
- Vestmannaeyjar
- Hveragerði
- Skeiða- og Gnúpv.hr
- Ásahreppur
- Grímsnes- og Grafn.hr.
- Samtök Sveitarfélaga Suðurlandi
- Samtök Sveitarfélaga Suðurnesjum